Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni
og tyfta mig ekki í bræði þinni.
Örvar þínar hafa hæft mig
og hönd þín liggur þungt á mér.
Ekkert er heilbrigt í líkama mínum
vegna reiði þinnar,
ekkert heilt í beinum mínum
sakir syndar minnar.
Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð,
þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.
Ódaun leggur af sárum mínum,
það grefur í þeim sakir heimsku minnar.
Ég er beygður og mjög bugaður,
eigra um harmandi daginn langan.
Brunasviði er í lendum mér
og ekkert er heilbrigt í líkama mínum.
Ég er lémagna og sundurkraminn,
styn í hjartans angist.
Drottinn, öll mín þrá er þér kunn
og andvörp mín eru eigi hulin þér.
Hjartað berst í brjósti mér, kraftur minn er þrotinn,
jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
Vinir mínir og kunningjar forðast mig í kröm minni
og mínir nánustu halda sig fjarri.