Þá safnaði Salómon til sín í Jerúsalem öllum öldungum Ísraels, öllum höfðingjum ættbálka og ætta Ísraels, til þess að flytja sáttmálsörk Drottins frá borg Davíðs, það er frá Síon. Allir Ísraelsmenn komu saman hjá Salómon konungi á hátíðinni í etanímmánuði, í sjöunda mánuðinum. Allir öldungar Ísraels komu og prestarnir tóku örkina og fluttu upp eftir ásamt tjaldbúðinni og öllum hinum helgu áhöldum sem voru í tjaldinu. Prestarnir og Levítarnir sáu um flutninginn. Salómon konungur og allur Ísraels söfnuður, sem hjá honum var, stóð frammi fyrir örkinni. Færðu þeir sauði og naut að sláturfórn, slíkan fjölda að hvorki varð talinn né tölu á komið. Því næst fluttu prestarnir sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innsta herbergi hússins, í hið allra helgasta, undir vængi kerúbanna því að þeir breiddu út vængina yfir staðnum þar sem örkin stóð. Kerúbarnir huldu örkina og burðarstengur hennar ofan frá. Burðarstengurnar voru svo langar að enda þeirra mátti sjá frá helgidóminum framan við innsta herbergið en þær sáust ekki þar fyrir framan. Þær hafa verið þar allt fram á þennan dag. Ekkert var í örkinni annað en steintöflurnar tvær sem Móse hafði sett í hana við Hóreb þegar Drottinn gerði sáttmála við Ísraelsmenn eftir brottför þeirra frá Egyptalandi.
En svo bar við þegar prestarnir gengu út úr helgidóminum að ský fyllti musteri Drottins. Gátu prestarnir ekki gegnt þjónustu sinni fyrir skýinu því að dýrð Drottins fyllti musteri Drottins.
Þá sagði Salómon:
Drottinn hefur sagt
að hann vilji búa í myrkri.
Nú hef ég byggt þér veglegt hús,
eilífan bústað.