3. kafli
Áður en þessi leið var fær vorum við innilokuð í gæslu lögmálsins þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara.
Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.
4. kafli
Með öðrum orðum: Alla þá stund sem erfinginn er ófullveðja er enginn munur á honum og þræli þótt hann eigi allt. Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma er faðirinn hefur ákveðið. Þannig vorum við einnig, er við vorum ófullveðja, í ánauð heimsvættanna. En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli – til þess að hann keypti lausa þá sem voru undir lögmáli og við yrðum börn Guðs. En þar eð þið eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu okkar sem hrópar: „Abba, faðir!“ Þú ert þá ekki framar þræll heldur barn. En ef þú ert barn, þá hefur Guð líka gert þig erfingja.