Ungur var ég og gamall er ég orðinn
en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn
eða niðja hans biðja sér matar.
Ætíð er hann mildur og fús til að lána
og niðjar hans verða öðrum til blessunar.
Forðastu illt en ger gott,
þá muntu eiga bústað um aldur
því að Drottinn hefur mætur á réttlæti
og yfirgefur eigi sína trúuðu.
Þeir verða að eilífu varðveittir
en niðjar óguðlegra upprættir.
Réttlátir fá landið til eignar
og búa þar ævinlega.
Munnur hins réttláta mælir speki
og tunga hans boðar réttlæti.
Lögmál Guðs hans er í hjarta hans,
eigi skriðnar honum fótur.
Guðlaus maður situr um réttlátan
og sækist eftir lífi hans.
En Drottinn ofurselur hann ekki
og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.
Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans,
hann mun hefja þig upp, að þú erfir landið,
og þú munt sjá guðleysingjum tortímt.
Ég hef séð óguðlegan ofstopamann
breiða úr sér sem laufmikið tré í gróðurreit sínum.
Ég gekk þar hjá, og sjá, hann var þar ekki framar,
ég leitaði hans en hann var hvergi að finna.
Gef gætur að hinum ráðvanda og horfðu til hins grandvara
því að friðsamir menn eiga framtíðina fyrir sér
en allir syndarar farast,
óguðlegir eiga sér enga framtíð.
Hjálp réttlátra kemur frá Drottni,
hann er hæli þeirra á neyðartímum.
Drottinn liðsinnir þeim og bjargar,
frelsar þá frá óguðlegum og bjargar þeim
því að þeir leituðu athvarfs hjá honum.