Þannig erum við, systkin, í skuld, ekki við eigin hyggju að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Ég lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast. Því að sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber. Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo, í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.
Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. Og ekki það eitt, heldur stynjum við sem eigum frumgróða andans einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama okkar.