Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“
Fólkið svaraði honum: „Við erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þið munuð verða frjálsir?“
Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem drýgir synd er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur á heimilinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir. Ég veit að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður. Ég tala það sem ég hef séð hjá föður mínum og þér gerið það sem þér hafið heyrt hjá föður yðar.“
Menn svöruðu honum: „Faðir okkar er Abraham.“
Jesús svaraði þeim: „Ef þér væruð niðjar Abrahams munduð þér vinna verk Abrahams. En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gerði Abraham aldrei. Þér vinnið verk föður yðar.“
Menn sögðu við hann: „Við erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum við, Guð.“