Og er stundin var komin gekk Jesús til borðs og postularnir með honum. Og hann sagði við þá: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður áður en ég líð. Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.“
Þá tók hann kaleik, gerði þakkir og sagði: „Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins fyrr en Guðs ríki kemur.“
Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.
En sjá, hönd þess er mig svíkur er á borðinu hjá mér. Mannssonurinn fer að sönnu þá leið sem ákveðin er en vei þeim manni sem því veldur að hann verður framseldur.“
Og þeir tóku að spyrjast á um það hver þeirra mundi verða til þess að gera þetta.
Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.