Þeir komu til Kapernaúm. Þegar þeir voru komnir inn spurði Jesús þá: „Hvað voruð þið að ræða á leiðinni?“
En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni hver væri mestur.
Hann settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: „Hver sem vill vera fremstur sé síðastur allra og þjónn allra.“ Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“
Jóhannes sagði við hann: „Meistari, við sáum mann reka út illa anda í þínu nafni og vildum við varna honum þess af því að hann fylgdi okkur ekki.“
Jesús sagði: „Varnið honum þess ekki því að enginn gerir kraftaverk í mínu nafni og fer þegar á eftir að tala illa um mig. Sá sem er ekki á móti okkur er með okkur. Sannlega segi ég ykkur að hver sem gefur ykkur bikar vatns að drekka vegna þess að þið hafið játast Kristi, hann mun alls ekki missa af launum sínum.
Hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum sem trúa væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.