Eftir þetta fóru Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði. Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast. Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.
Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins. Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: „Rabbí, sá sem var hjá þér handan Jórdanar og þú barst vitni um, hann er að skíra og allir koma til hans.“
Jóhannes svaraði þeim: „Enginn getur tekið neitt nema Guð gefi honum það. Þið getið sjálfir vitnað um að ég sagði: Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum. Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa en ég að minnka.“