Hinn óguðlegi bruggar réttlátum vélráð
og gnístir tönnum gegn honum.
Drottinn hlær að honum
því að hann sér að dagur hans kemur.
Óguðlegir bregða sverði og spenna boga sína
til þess að fella hinn umkomulausa og snauða,
til þess að deyða hina ráðvöndu.
En sverð þeirra munu rista þeirra eigin hjörtu
og bogar þeirra munu brotnir verða.
Betri er lítil eign réttláts manns
en auðlegð margra óguðlegra
því að armur óguðlegra mun brotinn
en réttláta styður Drottinn.
Drottinn hefur gætur á dögum flekklausra
og arfleifð þeirra varir að eilífu.
Á vondum tímum verða þeir ekki til skammar,
í hallæri hljóta þeir saðning.
En hinir óguðlegu munu farast.
Óvinir Drottins eru sem blóm á engi,
þeir hverfa, eins og reykur hverfa þeir.
Guðlaus maður tekur lán og borgar ekki
en réttlátur maður er mildur og örlátur.
Þeir sem Drottinn blessar fá landið til eignar
en hinum bannfærðu verður tortímt.
Drottinn stýrir skrefum mannsins
þegar hann hefur þóknun á vegferð hans.
Þó að hann hrasi fellur hann ekki flatur
því að Drottinn heldur í hönd hans.