Efraímítum var stefnt saman. Þeir héldu í norður og sögðu við Jefta: „Hví fórst þú að berjast við Ammóníta og kallaðir okkur ekki til liðs við þig? Nú munum við leggja eld í hús þitt.“ Þá sagði Jefta við þá: „Ég og þjóð mín áttum í miklum deilum við Ammóníta. Beiddist ég þá liðs af ykkur en þið hjálpuðuð mér ekki úr höndum þeirra. Þegar ég sá að þið ætluðuð ekki að hjálpa mér þá hætti ég lífi mínu og hélt gegn Ammónítum og Drottinn gaf þá mér í hendur. Hvers vegna komið þið þá til mín í dag til þess að berjast við mig?“ Jefta safnaði saman öllum mönnum í Gíleað og barðist við Efraímíta og unnu íbúar Gíleaðs sigur á Efraímítum. Efraímítar höfðu sagt: „Þið eruð flóttamenn frá Efraím. Gíleað er mitt í Efraím, mitt í Manasse.“ Íbúar Gíleaðs settust um Jórdanarvöðin yfir til Efraíms. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: „Leyfið mér að fara yfir,“ þá sögðu íbúarnir í Gíleað við hann: „Ert þú Efraímíti?“ Ef hann svaraði: „Nei,“ sögðu þeir við hann: „Segðu Sjibbólet.“ Ef hann sagði: „Sibbólet,“ og gætti þess ekki að bera það rétt fram gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanarvöðin. Féllu þá fjörutíu og tvö þúsund af niðjum Efraíms.
Jefta var dómari í Ísrael í sex ár. Síðan andaðist Jefta frá Gíleað og var grafinn í einni af borgunum í Gíleað.

Eftir Jefta varð Íbsan frá Betlehem dómari í Ísrael. Hann átti þrjátíu syni og þrjátíu dætur gifti hann burt frá sér og þrjátíu konur fékk hann sonum sínum annars staðar að. Hann var dómari í Ísrael sjö ár. Síðan andaðist Íbsan og var grafinn í Betlehem.
Eftir hann varð Elón, niðji Sebúlons, dómari í Ísrael. Hann var dómari í Ísrael tíu ár. Síðan andaðist Elón, niðji Sebúlons, og var grafinn í Ajalon í Sebúlonslandi.
Eftir hann var Abdón Híllelsson frá Píratón dómari í Ísrael. Hann átti fjörutíu syni og þrjátíu sonasyni sem riðu sjötíu ösnufolum. Hann var dómari í Ísrael átta ár. Síðan andaðist Abdón Híllelsson frá Píratón og var grafinn í Píratón í Efraímslandi á fjöllum Amalekíta.