Þá kom andi Drottins yfir Jefta og hann fór um Gíleað og Manasse og til Mispe í Gíleað og frá Mispe í Gíleað fór hann gegn Ammónítum. Og Jefta vann Drottni heit og sagði: „Ef þú selur Ammóníta í hendur mér skal sá sem fyrstur gengur út úr dyrum húss míns á móti mér þegar ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, tilheyra Drottni og ég skal fórna honum sem brennifórn.“ Síðan hélt Jefta gegn Ammónítum til þess að berjast við þá og Drottinn gaf þá honum í hendur. Hann vann mikinn sigur á þeim frá Aróer og alla leið til Minnít, vann tuttugu borgir, og til AbelKeramím. Þannig urðu Ammónítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum.

Þegar Jefta kom heim til húss síns í Mispa gekk dóttir hans út á móti honum með trumbuslætti og dansi. Hún var einkabarn hans og átti hann engan son eða dóttur nema hana. Þegar hann sá hana reif hann klæði sín og sagði: „Æ, dóttir mín, nú hryggirðu mig sárlega. Sjálf veldur þú mér nú sárustum trega. Ég hef lokið upp munni mínum við Drottin og ég get ekki tekið heit mitt aftur.“ En hún sagði við hann: „Faðir minn, ef þú hefur lokið upp munni þínum við Drottin, gerðu þá við mig eins og munnur þinn hefur lofað fyrst Drottinn hefur látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum.“ Og enn sagði hún við föður sinn: „Gerðu þetta fyrir mig: Láttu mig fá tveggja mánaða frest svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og harmað það með stallsystrum mínum að ég verði að deyja ung mær.“
Hann sagði: „Farðu,“ og lét hana fara burt í tvo mánuði. Fór hún þá burt með stallsystrum sínum og grét það á fjöllunum að hún yrði að deyja ung mær. En að tveimur mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns og hann fór með hana samkvæmt heitinu sem hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmanns kennt. Varð það því siður í Ísrael að árlega fara dætur Ísraels að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á hverju ári.