Davíðssálmur.
Ver eigi bráður þeim sem illt vinna,
öfunda eigi þá sem ranglæti fremja
því að þeir fölna skjótt sem grasið,
visna sem grænar jurtir.
Treyst Drottni og ger gott,
þá muntu óhultur búa í landinu.
Njót gleði í Drottni,
þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.
Fel Drottni vegu þína og treyst honum,
hann mun vel fyrir sjá.
Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós
og rétt þinn sem hábjartan dag.
Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann,
ver eigi of bráður vegna þess manns sem vel gengur
eða þess sem illu veldur.
Lát af reiði, slepp heiftinni,
ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
Því að illvirkjum verður tortímt
en þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar.
Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn,
ef þú leitar hans er hann ekki að finna.
En hinir hógværu fá landið til eignar
og gleðjast yfir miklu gengi.