En hví hljóðar þú hástöfum?
Áttu þér engan konung?
Eru ráðgjafar þínir á burt?
Er það vegna þess sem þú engist
sem jóðsjúk kona?
Þú skalt engjast og hljóða, dóttirin Síon,
eins og kona í barnsnauð.
Nú verður þú að fara úr borginni
og hafast við á víðavangi.
Þú ferð til Babýlonar
og þar verður þér bjargað,
þar frelsar Drottinn þig
úr höndum óvina þinna.

Nú hafa margar þjóðir safnast gegn þér.
Þær segja: „Hlökkum nú yfir óförum Síonar.“
Þær þekkja hvorki hug Drottins
né skilja áform hans.
Hann hefur þegar safnað þeim
líkt og kornknippum á þreskivöll.
Nú skal þreskja, dóttirin Síon.
Ég geri þér horn úr járni
og klaufir úr eir.
Margar þjóðir munt þú troða niður,
helga Drottni herfang þeirra
og auðæfi þeirra Drottni allrar veraldar.
Ristu hörund þitt, ræningjadóttir.
Þeir hafa gert oss umsátur
og með sprota löðrunga þeir
leiðtoga Ísraels.