Heyrið þetta, leiðtogar Jakobs ættar,
höfðingjar Ísraels ættar,
þér sem hafið andstyggð á réttlæti
og hallið hverju því sem rétt er,
þér sem byggið Síon með blóði
og Jerúsalem með ódæðisverkum.
Höfðingjar hennar þiggja mútur fyrir dóma sína,
prestar hennar fé fyrir ráð sín
og spámenn hennar spá gegn gjaldi.
Þó reiða þeir sig á Drottin og segja:
„Er Drottinn ekki með oss?
Engin ógæfa hendir oss.“
Af yðar sökum
verður Síon plægð sem akur,
Jerúsalem verður að rúst
og musterisfjallið að kjarrivaxinni hæð.
En sjá, þeir dagar koma
að musterisfjall Drottins
stendur óbifanlegt,
hæst allra fjalla,
og gnæfir yfir hæðirnar.
Þangað munu þjóðirnar flykkjast
og segja:
„Komum. Göngum upp á fjall Drottins,
til húss Jakobs Guðs,
svo að hann sýni oss veg sinn
og vér fáum fetað slóð hans.“
Því að frá Síon mun kenning berast
og orð Drottins frá Jerúsalem.
Og hann mun dæma meðal margra þjóða
og skera úr málum fjarlægra stórvelda.
Þær munu smíða plógjárn
úr sverðum sínum
og sniðla úr spjótum sínum.
Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð
og ekki skulu þær temja sér hernað framar.
Þá munu menn sitja óhræddir,
hver undir sínum vínviði eða fíkjutré.
Svo hefur Drottinn allsherjar mælt.
Aðrar þjóðir munu lifa,
hver í nafni síns guðs,
en vér munum lifa í nafni Drottins, Guðs vors,
um aldir alda.
Á þeim degi, segir Drottinn,
safna ég hinum höltu saman,
stefni saman hinum útskúfuðu
og þeim sem ég hef beitt hörku.
Hina höltu læt ég komast af
og geri hina útskúfuðu að voldugri þjóð.
Og Drottinn mun ríkja yfir þeim á Síonarfjalli
héðan í frá og að eilífu.
Þú, varðturn hjarðmannsins,
varðhæð dótturinnar Síonar.
Til þín mun koma
hið fyrra veldi,
á ný mun konungdæmið hverfa til Jerúsalem.