Mikið gott starf er unnið í þjóðkirkjunni á meðal ýmissa hópa.  Þar má t.d. nefna prest innflytjenda sem sinnir málefnum innflytjenda og flóttamanna, og fangaprest, sem sinnir þörfum fanga og aðstandenda þeirra. Hið íslenska Biblíufélag hefur komist að því að það getur auðveldlega stutt við skjólstæðinga prestanna með því að útvega þeim bókina góðu, Biblíuna.

Á dögunum var stjórn HíB gert viðvart að þörf væri á Biblíum fyrir innflytjendur og fanga á ýmsum tungumálum. Fyrsta sendingin barst nýverið. Við tilefnið færði Biblíufélagið sr. Toshiki Toma og sr Ásu Laufeyju Sæmundsdóttur biblíur á tungumálinu farsí, og Evu Björk Valdimarsdóttur, starfandi fangapresti, kiljubiblíur á íslensku. Væntanlegar í næstu sendingu eru síðan Biblíur á arabísku og spænsku sem vitað er að munu koma að gagni.

Á myndinni má sjá sr. Grétar Halldór Gunnarsson, stjórnarmann í Biblíufélaginu afhenda sr. Evu Björk Valdimarsdóttur, sr. Toshiki Toma, Sr. Ásu Laufeyju Sæmundsdóttur Biblíur úr fyrstu sendingu. Þau munu síðan koma Biblíunum áfram til þeirra skjólstæðinga sinna sem þess óska.