Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hefur gefið út á Spotify, lög við 12 þekktar sögur úr Biblíunni sem voru upphaflega samin fyrir Tölvubiblíu barnanna og komu fyrst út árið 2000.
Fyrir rúmum 22 árum gaf Hið íslenska Biblíufélag út Tölvubiblíu barnanna. Um var að ræða bók og geisladisk með tölvuleikjum og frumsömdum lögum.
Í Tölvubiblíunni voru kvæði eftir Jóhannes Møllehave við 50 þekktar sögur úr Biblíunni sem Böðvar Guðmundsson skáld þýddi og/eða endurorti úr dönsku. Bókinni fylgdi geisladiskur sem á voru 12 tölvuleikir við sögurnar. Í þeim þurftu börnin að glíma við margskonar þrautir, eins og t.d. að vernda Mósebarnið í sefkörfunni fyrir krókódílum eða aðstoða vini lamaða mannsins við að finna Jesú. Á geisladisknum voru einnig tólf frumsamin lög eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson við texta Böðvars.