Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“
En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“
Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“

Og hann sagði við þá: „Þegar ég sendi yður út án pyngju og mals og skólausa, brast yður þá nokkuð?“
Þeir svöruðu: „Nei, ekkert.“
Þá sagði hann við þá: „En nú skal sá er pyngju hefur taka hana með sér og eins sá er mal hefur og hinn sem ekkert á selji yfirhöfn sína og kaupi sverð. Því ég segi yður að þessi ritning á að rætast á mér: Með illvirkjum var hann talinn. Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað.“
En þeir sögðu: „Drottinn, hér eru tvö sverð.“
Og hann sagði við þá: „Það er nóg.“

Síðan fór Jesús út og gekk, eins og hann var vanur, til Olíufjallsins. Og lærisveinarnir fylgdu honum. Þegar hann kom á staðinn sagði hann við þá: „Biðjið að þið fallið ekki í freistni.“
Og hann vék frá þeim svo sem steinsnar, féll á kné, baðst fyrir og sagði: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ [ Þá birtist honum engill af himni sem styrkti hann. Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir en sveiti hans varð eins og blóðdropar er féllu á jörðina.]
Hann stóð upp frá bæn sinni, kom til lærisveinanna og fann þá sofandi, örmagna af hryggð. Og hann sagði við þá: „Hví sofið þið? Rísið upp og biðjið að þið fallið ekki í freistni.“