Þið eruð ekki komin til fjalls sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir sem hana heyrðu báðust undan því að meira væri til sín talað. Því að þeir þoldu ekki það sem fyrir var skipað: „Þó að það sé ekki nema skepna, sem snertir fjallið, skal hún grýtt verða.“ Svo ógurlegt var það sem fyrir augu bar að Móse sagði: „Ég er mjög hræddur og skelfdur.“
Nei, þið eruð komin til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla, til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, sem dæmir alla, og til anda réttlátra manna, sem fullkomnir eru orðnir, og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.
Gætið þess að þið hafnið ekki þeim sem talar. Þeir sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu komust ekki undan. Miklu síður munum við komast undan ef við gerumst fráhverf honum er gefur guðlega bendingu frá himnum. Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: „Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina heldur og himininn.“ Orðin: „Enn einu sinni“ sýna að það sem bifast er skapað og hverfur til þess að það standi stöðugt sem eigi bifast.
Þar sem við því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum við þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta. Því að okkar Guð er eyðandi eldur.