Biblíufélagið er að vinna að gerð hljóðbóka fyrir átta rit Biblíunnar um þessar mundir. Þóra Karítas Árnadóttir les núna í nóvember Rutarbók, Esterarbók, Harmljóðin og Ljóðaljóðin. Arnar Jónsson mun halda áfram lestri Mósebókanna eftir áramót er hann les 2. Mósebók. Þá mun Eggert Kaaber lesa bókina um Jónas, auk Esra og Nehemía. Hægt verður að nálgast hljóðbækurnar á vef Biblíufélagsins og í Bible.com appinu án endurgjalds.

Lestur, upptaka, hljóðblöndun og prófarkahlustun, auk tæknifrágangs fyrir vef og appið, kostar um 500 krónur á hvert vers, en þessi 8 rit eru rétt tæplega 2500 vers og kostnaður því um 1,250,000 krónur. Bakhjarlar Biblíunnar hafa stutt dyggilega við hljóðbókarverkefnið, en betur má ef duga skal. Hægt er að styrkja hljóðbókarverkefnið á vef Biblíufélagsins og ástæða til að hvetja velunnara félagsins til að taka þátt með einstöku framlagi eða með því að ganga í lið Bakhjarla Biblíunnar og styrkja félagið mánaðarlega.

Hið íslenska biblíufélag er almannaheillafélag. Einstaklingar og fyrirtæki sem styrkja félagið með gjöfum yfir 10.000 krónum á ári fá skattaafslátt. Fyrirtæki geta veitt styrki til almannaheillafélaga fyrir allt að 1,5% af rekstrartekjum ársins. Hið íslenska biblíufélag sendir skattayfirvöldum yfirlit yfir þá einstaklinga og félög sem gefa umfram 10.000 krónur á ári, og er upphæðin færð sjálfvirkt á skattframtal stuðningsaðila.

Það er einnig hægt að styrkja hljóðbókarverkefnið með því að leggja inn á reikning Biblíufélagsins í Landsbankanum. Bankanúmer: 0101-26-622200, kennitala: 620169-7739, merkt: hljodb.