Til söngstjórans. Davíðssálmur.
Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis,
lát mig aldrei verða til skammar.
Bjarga mér í réttlæti þínu.
Hneig eyra þitt að mér,
kom skjótt mér til hjálpar.
Ver mér verndarbjarg,
vígi mér til hjálpar,
því að þú ert bjarg mitt og vígi
og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
Leystu mig úr netinu sem lagt var fyrir mig
því að þú ert vörn mín.
Í þínar hendur fel ég anda minn,
þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð.
Ég hata þá sem dýrka fánýt skurðgoð
en treysti Drottni.
Ég gleðst og fagna yfir trúfesti þinni
því að þú sást neyð mína
og gafst gætur að mér í þrengingum,
lést mig ekki ganga í greipar óvinarins
heldur beindir fótum mínum á víða velli.
Miskunna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur,
döpruð af harmi eru augu mín,
sál mín og líkami.
Ár mín líða í harmi
og líf mitt í andvörpum,
mér förlast kraftur sakir sektar minnar
og bein mín tærast.
Ég verð öllum óvinum mínum að spotti,
háðsefni grönnum mínum
og kunningjar hræðast mig
og þeir sem mæta mér á götu sneiða hjá mér.
Ég er gleymdur sem látinn væri,
orðinn eins og brotið ker.
Ég heyri hvískur margra,
ógn í öllum áttum.
Þeir sitja á svikráðum við mig
og ætla að svipta mig lífi.