Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“