Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt,
ver mér náðugur og bænheyr mig.
Ég minnist þess að þú sagðir:
„Leitið auglitis míns.“
Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
Hyl eigi auglit þitt fyrir mér,
vísa þjóni þínum ekki frá þér í reiði,
þú, sem hefur hjálpað mér.
Hrind mér eigi burt
og yfirgef mig eigi,
þú Guð hjálpræðis míns.
Þótt faðir minn og móðir yfirgefi mig
tekur Drottinn mig að sér.
Vísa mér veg þinn, Drottinn,
leiddu mig á beina braut
vegna óvina minna.
Ofursel mig ekki græðgi hatursmanna minna,
falsvitni rísa gegn mér
og blása af heift.
En ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins
á landi lifenda.
Já, vona á Drottin,
ver öruggur og hugrakkur,
vona á Drottin.