Ísraelsmenn gerðu það sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Midíans í sjö ár. Og Midían varð Ísrael voldugri. Gerðu Ísraelsmenn sér þá fylgsni á fjöllum uppi, hella og vígi fyrir Midían. Í hvert sinn sem Ísraelsmenn höfðu lokið við að sá komu Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar og héldu gegn þeim. Þeir settu upp herbúðir sínar gegnt Ísraelsmönnum, eyddu jarðargróða alla leið til Gasa og skildu enga lífsbjörg eftir í Ísrael, hvorki sauði, naut né asna. Þeir fóru þangað með kvikfénað sinn og tjöld. Kom slíkur aragrúi af þeim sem engisprettur væru. Varð engri tölu á þá né úlfalda þeirra komið og brutust þeir inn í landið til að eyða það. Var Ísrael þá mjög þjakaður vegna Midíans og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins.
Þegar Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna sem sagði við þá: „Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi ykkur út af Egyptalandi og frelsaði ykkur úr þrælahúsinu og ég frelsaði ykkur úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra sem kúguðu ykkur, ég hrakti þá undan ykkur og gaf ykkur land þeirra. Og ég sagði við ykkur: Ég er Drottinn, Guð ykkar. Þið skuluð ekki óttast guði Amorítanna en land þeirra byggið þið nú. En þið hlýdduð ekki rödd minni.“