Ísraelsmenn gerðu það sem illt var í augum Drottins, gleymdu Drottni, Guði sínum, og þjónuðu bæði Baölum og Asérum. Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael svo að hann seldi þá í hendur Kúsan Rísjataím, konungi í Aram í Norður-Mesópótamíu, og Ísraelsmenn þjónuðu Kúsan Rísjataím í átta ár. Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og Drottinn vakti upp hjálparmann sem hjálpaði Ísraelsmönnum, Otníel Kenasson, yngri bróður Kalebs. Andi Drottins var yfir honum og hann varð dómari í Ísrael. Hann fór í hernað, Drottinn gaf Kúsan Rísjataím, konung í Aram, honum á vald og hann reyndist Kúsan Rísjataím voldugri. Síðan var friður í landinu í fjörutíu ár. Þá andaðist Otníel Kenasson.

Ísraelsmenn gerðu enn það sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, gegn Ísrael af því að þeir gerðu það sem illt var í augum Drottins. Hann safnaði að sér niðjum Ammóns og Amaleks, fór því næst og vann sigur á Ísrael og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald. Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár. Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og Drottinn vakti upp mann þeim til hjálpar, Ehúð, son Gera Benjamínsniðja, en hann var örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab. Ehúð hafði gert sér sverð tvíeggjað, alin að lengd. Hann gyrti sig því innanklæða á hægri hlið. Fór hann og færði Eglón Móabskonungi skattinn en Eglón þessi var mjög digur maður. Þegar hann hafði reitt fram skattinn lét hann þá fara sem borið höfðu skattinn. Sjálfur sneri hann aftur hjá steinstyttunum í Gilgal. Ehúð sagði við konung: „Ég á leynilegt erindi við þig, konungur.“ „Hafið hljótt,“ skipaði konungur og allir gengu út sem hjá honum stóðu. Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat einn í svalanum í þaksal sínum, og mælti: „Ég ber þér erindi frá Guði.“ Konungur reis þá úr sæti sínu. En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum. Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu svo að spikið huldi blaðið því að ekki dró hann saxið úr kviði hans og saurinn vall út. Síðan gekk Ehúð út um veröndina, lokaði dyrunum á þaksalnum á eftir sér og læsti þeim.
Þegar hann var farinn komu þjónar konungs, sáu að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: „Sjálfsagt er hann að létta á sér inni í svala herberginu.“ Biðu þeir nú uns þeir tóku að blygðast sín og ekki lauk hann upp dyrunum að þaksalnum. Tóku þeir því lykilinn og opnuðu og lá þá húsbóndi þeirra dauður á gólfinu.