Davíðssálmur.
Lát mig ná rétti mínum, Drottinn,
því að ég geng fram í ráðvendni,
ég treysti Drottni og bifast ekki.
Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig,
prófa nýru mín og hjarta.
Því að ég hef gæsku þína fyrir augum
og geng í trausti til þín.
Ég tek mér ekki sæti hjá lygurum
og umgengst ekki fláráða,
ég hata söfnuð illvirkja
og sit ekki hjá óguðlegum.
Ég þvæ hendur mínar í sakleysi
og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
til að láta lofsöng hljóma
og segja frá öllum máttarverkum þínum.
Drottinn, ég elska húsið sem er bústaður þinn
og staðinn þar sem dýrð þín býr.
Sviptu mér ekki burt með syndurum,
deyddu mig ekki með morðingjum
sem hafa flekkaðar hendur
og hægri höndina fyllta mútufé.
En ég geng fram í ráðvendni,
frelsa mig og líkna mér.
Fótur minn stendur á sléttri grund,
ég vil lofa Drottin í söfnuðinum.