Ættmenn Jósefs fóru líka upp til Betel og Drottinn var með þeim. Og ættmenn Jósefs létu njósna í Betel en borgin hét áður Lús. Þá sáu njósnararnir mann koma út úr borginni og sögðu við hann: „Sýndu okkur hvar komast má inn í borgina, þá munum við hlífa þér.“ Hann sýndi þeim hvar komast mætti inn í borgina og þeir tóku hana herskildi en leyfðu manninum og öllu fólki hans að fara. Maðurinn fór til lands Hetíta og reisti þar borg og nefndi hana Lús. Það heitir hún enn í dag.
Manasse hrakti hvorki burt íbúana í Bet Sean og þorpunum í grennd, í Taanak og þorpunum í grennd, íbúana í Dór og þorpunum í grennd, íbúana í Jibleam og þorpunum í grennd né íbúana í Megiddó og þorpunum í grennd. Þannig höfðu Kanverjar áfram bústað á því svæði. Þegar Ísrael efldist gerði hann Kanverja sér vinnuskylda og rak þá ekki með öllu burt.
Efraím rak Kanverjana sem bjuggu í Geser ekki burt. Þannig héldu Kanverjar áfram að búa meðal þeirra í Geser.
Sebúlon rak hvorki burt íbúana í Kitrón né Nahalól. Þannig héldu Kanverjar áfram að búa meðal þeirra og urðu þeim vinnuskyldir.
Asser rak hvorki burt íbúana í Akkó né Sídon og ekki heldur í Ahlab, Aksíd, Helba, Afík og Rehób. Þess vegna bjuggu Assersniðjar meðal Kanverjanna sem fyrir voru í landinu. Þeir ráku þá ekki burt.
Naftalí rak hvorki burt íbúana í Bet Semes né Bet Anat. Þess vegna bjó hann meðal Kanverjanna sem fyrir voru í landinu en íbúarnir í Bet Semes og Bet Anat urðu þeim vinnuskyldir.
Amorítar þrengdu niðjum Dans upp í fjöllin og vörnuðu þeim að komast niður á sléttlendið. Þannig höfðu Amorítar áfram búsetu í Har Heres, í Ajalon og Saalbím en af því að ætt Jósefs var þeim voldugri urðu þeir vinnuskyldir. Landamæri Amoríta lágu frá Sporðdrekaskarði, frá klettinum og þar upp eftir.