Jesús sagði við þá: „Hvernig geta menn sagt að Kristur sé sonur Davíðs? Davíð segir sjálfur í Sálmunum:
Drottinn sagði við minn drottin:
Set þig mér til hægri handar
þangað til ég geri óvini þína að fótskör þinni.

Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?“

Jesús sagði við lærisveina sína í áheyrn alls fólksins: „Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. Þeir mergsjúga ekkjur og hafa af þeim heimili þeirra en flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.“

Þá leit Jesús upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna. Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga. Þá sagði hann: „Ég segi ykkur með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.“

Einhverjir höfðu orð á að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús: „Þeir dagar koma að allt sem hér blasir við verður lagt í rúst, ekki steinn yfir steini eftir.“

En þeir spurðu Jesú: „Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess að það sé að koma fram?“
Hann svaraði: „Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: Það er ég! og: Tíminn er í nánd! Fylgið þeim ekki. En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara en endirinn kemur ekki samstundis.“
Síðan sagði Jesús við þá: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum en ógnir og tákn mikil á himni.