Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús
en þér hafið gert það að ræningjabæli.“

Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.

Eitt sinn var Jesús að kenna fólkinu í helgidóminum og flutti fagnaðarerindið. Þá gengu æðstu prestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum til hans og sögðu: „Seg þú okkur, með hvaða valdi gerir þú þetta? Hver hefur gefið þér þetta vald?“
Hann svaraði þeim: „Ég vil og leggja spurningu fyrir ykkur. Segið mér: Hver fól Jóhannesi að skíra, var það Guð eða voru það menn?“
Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: „Ef við svörum: Það var Guð, spyr hann: Hví trúðuð þið honum þá ekki? Ef við svörum: Það voru menn, mun allt fólkið grýta okkur því að menn eru sannfærðir um að Jóhannes sé spámaður.“ Þeir kváðust því ekki vita hver fól honum það.
Jesús sagði við þá: „Ég segi ykkur þá ekki heldur hver fól mér að gera þetta.“