Þá er Jesús hafði þetta mælt hélt hann á undan áfram upp til Jerúsalem. Þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sem svo er nefnt, sendi hann tvo lærisveina sína og mælti: „Farið í þorpið hér fram undan. Þegar þið komið þangað munuð þið finna fola bundinn sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann. Ef einhver spyr ykkur: Hvers vegna leysið þið hann? þá svarið svo: Drottinn þarf hans við.“
Þeir sem sendir voru fóru og fundu allt vera eins og Jesús hafði sagt þeim. Og er þeir leystu folann sögðu eigendur hans við þá: „Hvers vegna leysið þið folann?“
Þeir svöruðu: „Drottinn þarf hans við,“ og fóru síðan með hann til Jesú. Þeir lögðu klæði sín á folann og settu Jesú á bak. En þar sem hann fór breiddu menn klæði sín á veginn.
Þegar Jesús var að koma þar að, sem farið er ofan af Olíufjallinu, hóf allur flokkur lærisveina hans að lofa Guð fagnandi hárri raustu fyrir öll þau kraftaverk, er þeir höfðu séð, og segja: „Blessaður sé konungurinn sem kemur í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í hæstum hæðum!“
Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: „Meistari, hasta þú á lærisveina þína.“
Hann svaraði: „Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa.“
Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“