Þá þrumaði Drottinn á himni,
Hinn hæsti lét raust sína gjalla
gegnum hagl og eldglæringar.
Hann skaut örvum langt og víða,
slöngvaði eldingum og tvístraði þeim.
Þá sá í mararbotn,
undirstöður jarðar birtust
þegar þú ógnaðir í reiði þinni, Drottinn,
og blést úr nösum þínum.
Hann rétti út hönd sína frá himni og greip mig,
dró mig upp úr vötnunum djúpu,
bjargaði mér undan hinum öfluga fjandmanni,
undan hatursmönnum mínum
sem voru mér máttugri.
Þeir réðust á mig á óheilladegi mínum
en Drottinn reyndist mér stoð.
Hann leiddi mig út á víðlendi,
leysti mig úr áþján af því að hann hefur mætur á mér.
Drottinn launaði mér réttlæti mitt,
endurgalt mér hreinleika handa minna
því að ég vék ekki af vegi Drottins
og brást ekki Guði mínum.
Þar sem öll boð hans voru mér fyrir augum
og ég hafnaði ekki lögum hans
var ég flekklaus frammi fyrir honum.
Ég varaðist að syndga;
þess vegna launaði Drottinn mér réttlæti mitt,
hreinleika handa minna fyrir augum hans.
Þú ert trúföstum trúfastur,
ráðvöndum ráðvandur,
einlægum einlægur
en andsnúinn svikurum.
Þú frelsar undirokaða
en gerir hrokafulla niðurlúta.