Laugardaginn 27. ágúst var haldin ráðstefna um Biblíuhandverk og hönnun á Biblíusafninu í Washington DC í Bandaríkjunum. Ráðstefnan var jafnframt stofnfundur Samtaka um Biblíuhandverk og hönnun, sem mun styðja við og hvetja til fagmennsku og nýsköpunar í prentun og útgáfu Biblíunnar á heimsvísu.

Ólafur Sigurðsson fyrrverandi fréttamaður og Albína Thordarson sóttu ráðstefnuna ásamt Halldóri Elíasi Guðmundssyni ráðgjafa hjá Biblíufélaginu.

Einn aðalfyrirlesara ráðstefnunnar var Klaus Erik Krogh, framkvæmdastjóri hönnunarfyrirtækisins 2K/Denmark, en 2K/Denmark er um þessar mundir að hanna tvær nýjar Biblíur fyrir Biblíufélagið á Íslandi.

Ráðstefnan var mjög gagnleg og áhugaverð. Sú þekking sem íslensku þátttakendurnir öðluðust mun nýtast vel, jafnt til nýsköpunar og í hefðbundnari verkefnum Biblíufélagsins á komandi árum.

Ljósmynd: Ólafur Sigurðsson, Albína Thordarson, Klaus Erik Krogh og Halldór Elías Guðmundsson að loknum löngum og spennandi degi í Biblíusafninu í Washington.