En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns. Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“
Nokkrir þeirra er þar stóðu heyrðu þetta og sögðu: „Hann kallar á Elía!“ Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.
Hinir sögðu: „Sjáum til hvort Elía kemur að bjarga honum.“
En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.
Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir heilagir menn, sem látnir voru, risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.
Þegar hundraðshöfðinginn og þeir sem gættu Jesú með honum sáu landskjálftann og atburði þessa hræddust þeir mjög og sögðu: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“
Þar voru og margar konur sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum. Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona.

Um kvöldið kom auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, er sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú. Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus bauð þá að fá Jósef hann. Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt. María Magdalena var þar og María hin og sátu þær gegnt gröfinni.

Næsta dag, hvíldardaginn, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: „Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“
Pílatus sagði við þá: „Hér hafið þið varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þið kunnið.“
Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.