Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“ Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir en hann svaraði engu.
Þá spurði Pílatus hann: „Heyrir þú ekki hve mjög þeir vitna gegn þér?“
En Jesús svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.

Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa fólkinu lausan einn bandingja, þann er það vildi. Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni. Sem þeir nú voru saman komnir sagði Pílatus við þá: „Hvorn viljið þið að ég gefi ykkur lausan, Barabbas eða Jesú sem kallast Kristur?“ Hann vissi að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.
Meðan Pílatus sat á dómstólnum sendi kona hans til hans með þessi orð: „Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna.“
En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas en að Jesús yrði deyddur. Landshöfðinginn spurði: „Hvorn þeirra tveggja viljið þið að ég gefi ykkur lausan?“
Þeir sögðu: „Barabbas.“
Pílatus spyr: „Hvað á ég þá að gera við Jesú sem kallast Kristur?“
Þeir segja allir: „Krossfestu hann.“
Pílatus spurði: „Hvað illt hefur hann þá gert?“
En þeir æptu því meir: „Krossfestu hann!“
Nú sér Pílatus að hann fær ekki að gert en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: „Sýkn er ég af blóði þessa [réttláta] manns! Svarið þið sjálf fyrir!“
Og allur lýðurinn sagði: „Komi blóð hans yfir okkur og yfir börn okkar!“
Þá gaf hann þeim Barabbas lausan en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.

Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni. Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu, fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: „Heill þér, konungur Gyðinga!“ Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið. Þegar þeir höfðu spottað hann færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.