En Pétur sat úti í garðinum. Þar kom að honum þerna ein og sagði: „Þú varst líka með Jesú frá Galíleu.“
Því neitaði hann svo allir heyrðu og sagði: „Ekki veit ég hvað þú ert að fara.“ Hann gekk út í fordyrið. Þar sá hann önnur þerna og sagði við þá sem þar voru: „Þessi var með Jesú frá Nasaret.“
En hann neitaði sem áður og sór þess eið að hann þekkti ekki þann mann.
Litlu síðar komu þeir er þar stóðu og sögðu við Pétur: „Víst ertu líka einn af þeim enda segir málfæri þitt til þín.“
En hann sór og sárt við lagði að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól hani. Og Pétur minntist þess er Jesús hafði mælt: „Áður en hani galar muntu þrisvar afneita mér.“ Og hann gekk út og grét beisklega.

Að morgni gerðu allir æðstu prestarnir og öldungarnir samþykkt gegn Jesú að hann skyldi af lífi tekinn. Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.

Þegar Júdas, sem sveik hann, sá að hann var dæmdur sekur iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu og mælti: „Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð.“
Þeir sögðu: „Hvað varðar okkur um það? Það er þitt að sjá fyrir því.“
Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.
Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: „Ekki má láta það í guðskistuna því þetta eru blóðpeningar.“ Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá akur leirkerasmiðsins til grafreits handa útlendingum. Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur.
Þá rættist það sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: „Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð sem sá var metinn á er til verðs var lagður af Ísraels sonum, og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt.“