Þeir sem tóku Jesú höndum færðu hann til Kaífasar æðsta prests en þar voru saman komnir fræðimennirnir og öldungarnir. Pétur fylgdi honum álengdar, allt að garði æðsta prestsins. Þar gekk hann inn og settist hjá þjónunum til að sjá hver yrði endir á. Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann en fundu ekkert þótt margir ljúgvottar kæmu. Loks komu tveir og sögðu: „Þessi maður sagði: Ég get brotið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum.“
Þá stóð æðsti presturinn upp og sagði: „Svarar þú því engu sem þessir vitna gegn þér?“ En Jesús þagði. Þá sagði æðsti presturinn við hann: „Ég særi þig við lifanda Guð, segðu okkur: Ertu Kristur, sonur Guðs?“
Jesús svarar honum: „Það voru þín orð. En ég segi ykkur: Upp frá þessu munuð þið sjá Mannssoninn sitja til hægri handar Hinum almáttuga og koma á skýjum himins.“
Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: „Hann guðlastar, hvað þurfum við nú framar votta við? Þið heyrðuð guðlastið. Hvað líst ykkur?“
Þeir svöruðu: „Hann er dauðasekur.“
Og þeir hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum en aðrir börðu hann með stöfum og sögðu: „Þú ert spámaður, Kristur. Hver sló þig?“