Til stjórnandans. Til þjóns Drottins. Eftir Davíð sem flutti Drottni þetta ljóð þegar Drottinn hafði bjargað honum úr greipum allra fjandmanna hans og úr greipum Sáls. Hann sagði:
Ég elska þig, Drottinn, styrkur minn.
Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn,
Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis,
skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín.
Lofaður sé Drottinn, hrópa ég
og bjargast frá fjandmönnum mínum.
Dauðans bönd héldu mér,
eyðandi fljót skelfdu mig.
Fjötrar heljar herptust að mér,
snörur dauðans ógnuðu mér.
Í angist minni kallaði ég á Drottin,
til Guðs míns hrópaði ég.
Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum,
óp mitt náði eyrum hans.
Þá skalf jörðin og nötraði,
undirstöður fjallanna bifuðust,
þær skulfu því að hann var reiður.
Reyk lagði úr nösum hans,
eyðandi eld úr munni hans,
eldslogar gengu út frá honum.
Hann sveigði himininn, steig ofan
og skýsorti var undir fótum hans.
Hann steig á bak kerúb og flaug af stað,
sveif á vængjum vindsins.
Hann sveipaði sig myrkri,
regnskýjum og skýsorta eins og tjaldi.
Frá ljómanum fyrir honum komu ský
með hagli og eldglæringum.