Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son. Svo er ritað hjá Jesaja spámanni:

Ég sendi sendiboða minn á undan þér,
hann á að greiða þér veg.
Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins,
gerið beinar brautir hans.

Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu hann skíra sig í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.
En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang. Hann prédikaði svo: „Sá kemur eftir mig sem mér er máttugri og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans. Ég hef skírt ykkur með vatni en hann mun skíra ykkur með heilögum anda.“

Svo bar við á þeim dögum að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og Jóhannes skírði hann í Jórdan.