Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég að hann væri þegar kveiktur! Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér uns hún er fullnuð.
Ætlið þér að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki. Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá, faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður.“

Jesús sagði og við fólkið: „Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri segið þér jafnskjótt: Nú fer að rigna. Og svo verður. Og þegar vindur blæs af suðri segið þér: Nú kemur hiti. Og svo fer. Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða. Hvers vegna kunnið þér ekki að meta það sem nú er að gerast?
Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður hvað rétt sé? Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig réttarþjóninum og hann varpi þér í fangelsi. Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.“