Svikin vog er Drottni andstyggð
en rétt vog er honum geðfelld.
Komi hroki kemur og smán
en hjá hinum hógværu er viska.
Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá
en undirferli lygarans tortímir honum.
Lítt gagna auðæfi á degi reiðinnar
en réttlæti frelsar frá dauða.
Réttlæti hins ráðvanda gerir veg hans sléttan
en hinn rangláti hrasar um eigin illsku.
Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá
en lygarar ánetjast eigin græðgi.
Í dauðanum brestur von hins rangláta
og væntingar illvirkjans bregðast.
Hinn réttláti frelsast úr nauðum,
hinn rangláti kemur í hans stað.
Með orðum tortímir hinn rangláti náunga sínum
en þekking hinna réttlátu bjargar þeim.
Borgin fagnar gæfu réttlátra
og þegar ranglátir menn farast gjalla gleðióp.
Blessun hinna réttsýnu reisir borgina
en orð ranglátra steypa henni.