Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.
En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu.
Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.
Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“
Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“
Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“
Þegar fólkið þyrptist þar að tók Jesús svo til orða: „Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar. Því Jónas varð Nínívemönnum tákn og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð. Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons og hér er meira en Salómon. Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana því að þeir tóku sinnaskiptum við prédikun Jónasar og hér er meira en Jónas.“