Hallelúja.
Lofið Drottin af himnum,
lofið hann á hæðum,
lofið hann, allir englar hans,
lofið hann, allir herskarar hans.
Lofið hann, sól og tungl,
lofið hann, allar lýsandi stjörnur,
lofið hann, himnanna himnar,
og vötnin himni ofar.
Lofi þau nafn Drottins
því að þau voru sköpuð að boði hans.
Hann fékk þeim stað um aldur og ævi,
setti þeim lög sem þau fá ekki brotið.
Lofið Drottin frá jörðu,
þér stóru sjávardýr og öll djúp hafsins,
eldur og hagl, snjór og þoka,
þú stormur, sem framfylgir boði hans,
þér fjöll og allar hæðir,
ávaxtatrén og öll sedrustré,
þér villidýr og allt búfé,
skriðdýr og fljúgandi fuglar,
þér konungar jarðar og allar þjóðir,
höfðingjar og allir valdsmenn jarðar,
yngismenn og yngismeyjar,
aldnir og ungir.
Þau lofi nafn Drottins
því að nafn hans eitt er hátt upp hafið,
hátign hans ljómar um himin og jörð.
Hann hefur gert þjóð sína volduga,
því hljómi lofsöngur hjá öllum dýrkendum hans,
hjá sonum Ísraels, lýðnum sem er honum nálægur.
Hallelúja.