En Heródes fjórðungsstjóri frétti allt sem gerst hafði og vissi ekki hvað hann átti að halda því að sumir sögðu að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum, aðrir að Elía væri kominn fram, enn aðrir að einn hinna fornu spámanna væri risinn upp. Heródes sagði: „Jóhannes lét ég hálshöggva en hver er þessi er ég heyri þvílíkt um?“ Og hann leitaði færis að sjá hann.

Postularnir komu aftur og skýrðu Jesú frá öllu því er þeir höfðu gert en hann tók þá með sér og vék brott til bæjar, sem heitir Betsaída, til þess að þeir væru einir saman. Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Jesús tók mönnum vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá er lækningar þurftu.
Nú tók degi að halla. Komu þá þeir tólf að máli við hann og sögðu: „Lát þú mannfjöldann fara svo að hann nái til þorpa og býla hér í kring og geti fengið gistingu og mat því að hér erum við á óbyggðum stað.“
En Jesús sagði við þá: „Gefið þeim sjálfir að eta.“
Þeir svöruðu: „Við eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska nema við förum og kaupum vistir handa öllu þessu fólki.“ En þar voru um fimm þúsund karlmenn.
Hann sagði þá við lærisveina sína: „Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum.“
Þeir gerðu svo og létu alla setjast. En hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut þau og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Allir neyttu og urðu mettir. En leifarnar eftir þá voru teknar saman, tólf körfur brauðbita.

Eitt sinn er Jesús var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum spurði hann þá: „Hvern segir fólkið mig vera?“
Þeir svöruðu: „Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp.“
Og Jesús sagði við þá: „En þið, hvern segið þið mig vera?“
Pétur svaraði: „Krist Guðs.“

Jesús lagði ríkt á við þá að segja þetta engum og mælti: „Mannssonurinn á margt að líða. Öldungarnir, æðstu prestarnir og fræðimennirnir munu útskúfa honum og hann verður líflátinn. En á þriðja degi mun hann upp rísa.“
Og Jesús sagði við alla: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en týna eða glata sjálfum sér? Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og dýrð föðurins og heilagra engla mun hann blygðast sín fyrir þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð. En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra sem hér standa munu ekki deyja fyrr en þeir sjá Guðs ríki.“