Jesús sagði við hann: „Maður nokkur gerði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom að veislan skyldi vera sendi hann þjón sinn að segja þeim er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.
Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gert sem þú bauðst og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um stíga og vegi og þrýstu á menn að koma inn svo að hús mitt fyllist. Því ég segi ykkur að enginn þeirra sem fyrst voru boðnir mun smakka kvöldmáltíð mína.“