Svo segir Drottinn allsherjar: Herðið upp hugann, þið sem heyrið á þessum dögum orð af munni spámannanna sem uppi voru þegar grundvöllur var lagður að endurbyggingu musterisins, húss Drottins allsherjar. Fyrir þá daga höfðu menn engar tekjur af vinnu sinni og engan arð af búpeningi sínum. Enginn gat þá verið á ferli óhultur fyrir óvinum því að öllum mönnum hleypti ég upp, hverjum gegn öðrum. En nú mun ég ekki breyta við þá sem eftir lifa af þjóðinni eins og á fyrri dögum, segir Drottinn allsherjar, því að það sem þeir sá mun dafna. Vínviðurinn ber ávöxt, jörðin gefur gróða, himinninn sendir dögg sína. Þeir sem lifa af þjóðinni munu slá eign sinni á allt þetta. Og þið, ætt Júda og ætt Ísraels, sem eruð orðnar að bölvun meðal þjóðanna, ykkur hjálpa ég, nú verðið þið til blessunar. Óttist ekki, verið hughraustar. Ég ásetti mér að gera ykkur illt þegar forfeður yðar reittu mig til reiði, segir Drottinn allsherjar, og þess iðraði mig ekki. En nú á þessum dögum hef ég ákveðið að gera vel við Jerúsalem og Júda ætt. Óttist ekki.
Þetta er það sem ykkur ber að gera:
Segið sannleikann hver við annan
og fellið dóma af sanngirni
og velvilja í hliðum yðar.
Enginn yðar ætli öðrum illt í hjarta sínu
og fellið yður ekki við meinsæri.
Allt slíkt hata ég,
segir Drottinn.