Orð Drottins allsherjar kom til mín: Svo segir Drottinn allsherjar:
Ég er gagntekinn af vandlæti vegna Síonar,
ég loga af vandlæti hennar vegna.
Svo segir Drottinn:
Ég sný aftur til Síonar
og tek mér bólfestu í Jerúsalem.
Og Jerúsalem verður nefnd borg sannleikans
og fjall Drottins allsherjar
fjallið helga.
Svo segir Drottinn allsherjar:
Enn munu öldungar og gamlar konur sitja
á torgum Jerúsalem,
háöldruð með staf í hendi,
og á torgum borgarinnar verður krökkt
af drengjum og stúlkum að leik.
Svo segir Drottinn allsherjar:
Þeim sem eftir verða á þeim dögum
kann að virðast það undarlegt
en verður það þá einnig undarlegt í mínum augum?
segir Drottinn allsherjar.
Svo segir Drottinn allsherjar:
Ég mun frelsa lýð minn
úr landi sólarupprásarinnar
og landi sólsetursins.
Ég flyt hann heim aftur
og hann mun búa í Jerúsalem
og vera minn lýður,
og ég verð Guð hans
í trúfesti og réttvísi.