Á fjórða degi hins níunda mánaðar, kislevmánaðar, á fjórða stjórnarári Daríusar konungs barst Sakaría orð Drottins. Þá sendu þeir Betel Sareser og Regem Melek og menn hans sendiboða til þess að leita fulltingis Drottins og leggja þessa fyrirspurn fyrir prestana, sem þjónuðu í húsi Drottins, og fyrir spámennina: „Á ég einnig að harma og fasta í fimmta mánuðinum eins og ég hef gert í mörg ár?“
Þá kom orð Drottins til mín:
Tala þú til allra íbúa landsins og prestanna og segðu: Þið hafið nú fastað og kveinað í fimmta og sjöunda mánuði í sjötíu ár, en var það mín vegna að þið föstuðuð? Þegar þið etið og drekkið, eruð það þá ekki þið sem etið og eruð það ekki þið sem drekkið? Eru þetta ekki þau orð sem Drottinn boðaði fyrir munn fyrri spámannanna þegar Jerúsalem var enn byggð og naut friðar ásamt borgunum umhverfis hana og Suðurlandið og vesturhlíðarnar voru byggðar?
Orð Drottins kom þá til Sakaría: Svo segir Drottinn allsherjar:

Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar.

En þessu vildu þeir ekki gefa gaum, sneru við baki í þrjósku og tróðu í eyru sín svo að þeir heyrðu ekki. Hjörtu sín gerðu þeir hörð sem stein svo að þau námu ekki áminningar og viðvaranir Drottins sem hann hafði boðað með anda sínum fyrir munn hinna fyrri spámanna. Spratt af því ógnarbræði Drottins allsherjar.
Hann kallaði en þeir heyrðu ekki og eins munu þeir nú kalla en ég ekki heyra, sagði Drottinn allsherjar. Ég feykti þeim meðal allra þeirra þjóða sem þeir höfðu ekki áður kynnst. Og landið varð að auðn eftir brottför þeirra svo að þar fór enginn maður um. Þannig sneru þeir unaðsreit í auðn.