Enn leit ég upp og sá fjóra vagna koma fram milli tveggja fjalla og voru þau fjöll úr eir. Rauðir hestar voru fyrir fyrsta vagninum en svartir fyrir öðrum, þriðja vagninn drógu hvítir hestar en skjóttir hinn fjórða.
Þá tók ég til máls og spurði engilinn, viðmælanda minn: „Hvað er þetta, herra?“ En engillinn svaraði mér og sagði: „Þetta eru höfuðvindarnir fjórir sem komið hafa fram fyrir Drottin allrar jarðarinnar og eru nú að leggja af stað. Vagninn með svörtu hestunum fyrir heldur til landsins í norðri, hinir hvítu stefna í vestur en skjóttu hestarnir halda til landsins í suðri. Rauðu hestarnir halda til héraðanna í austri. Þeir voru albúnir að rása um jörðina og hann skipaði þeim: Farið, farið um jörðina. Og það gerðu þeir. Og hann kallaði til mín og sagði: Sjá, þeir sem halda í norður svala reiði minni í landinu norður frá.“
Og orð Drottins kom til mín: Þiggðu gjafir hinna herleiddu, sem komnir eru frá Babýlon, af hendi þeirra Heldaí, Tobía og Jedaja, og farðu sjálfur samdægurs í hús Jósía Sefaníasonar. Taktu silfur og gull, smíðaðu kórónur og settu eina á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests. Talaðu til hans á þessa leið: Svo segir Drottinn allsherjar:
Maður heitir Sproti.
Hann mun spretta upp af rót sinni
og reisa musteri Drottins.
Hann mun reisa musteri Drottins
og öðlast þar tign
svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu.
Prestur verður honum til hægri handar
og með þeim verður full sátt.
Kórónan verður áfram í musteri Drottins til minja um þá Heldaí, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníason. Og menn munu koma óraleiðir til starfa við byggingu musteris Drottins. Þá munuð þið vita að Drottinn allsherjar hefur sent mig til ykkar ef þið aðeins hlýðið Drottni, Guði ykkar.