Um þetta töluðu þeir hver við annan, sem óttuðust Drottin, og Drottinn hlýddi á með athygli. Frammi fyrir honum var skrifuð bók til að minna á alla sem óttast Drottin og virða nafn hans.
Þeir skulu verða mín eign, segir Drottinn hersveitanna, á þeim degi sem ég hefst handa. Ég mun vægja þeim eins og maður vægir syni sínum sem þjónar honum. Þá munuð þið enn einu sinni sjá muninn á réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki.
Sjá, dagurinn kemur, logandi sem eldstó. Þá verða allir hrokagikkir og óguðlegir að hálmi og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim, segir Drottinn hersveitanna, svo að hvorki verður eftir af þeim rót né grein. En sól réttlætisins mun rísa yfir ykkur, sem virðið nafn mitt, og vængir hennar færa lækningu. Þá munuð þið koma út, stökkva eins og kálfar sem hleypt er úr fjósi. Þið munuð traðka óguðlega niður svo að þeir verða að ryki undir iljum ykkar daginn sem ég hefst handa, segir Drottinn hersveitanna.

Hafið lögmál Móse, þjóns míns, hugfast. Vegna alls Ísraels fékk ég honum það á Hóreb, með boðum þess og ákvæðum. Sjá, ég sendi Elía spámann til ykkar áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Hann mun sætta feður við syni og syni við feður svo að ég verði ekki að helga landið banni þegar ég kem.