Orðskviðir Salómons:
Vitur sonur gleður föður sinn
en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.
Rangfenginn auður stoðar ekki
en réttlæti frelsar frá dauða.
Drottinn lætur ekki réttlátan mann þola hungur
en kröfum hinna ranglátu hafnar hann.
Iðjuleysi færir örbirgð
en auðs aflar iðin hönd.
Hygginn er sá er safnar á sumri
en illa fer þeim sem sefur af sér uppskeruna.
Blessun hvílir yfir höfði hins réttláta
en lögleysan hylst í munni hins illa.
Minning hins réttláta verður blessuð
en nafn óguðlegra tærist burt.
Sá sem er vitur í hjarta þýðist áminningar
en þeim farnast illa sem talar af gáleysi.
Sá sem fer rétta vegu gengur óhultur
en upp kemst um þann sem þræðir hlykkjóttan veg.
Sá sem deplar auga veldur sárindum
en sá sem finnur að af hreinskilni stillir til friðar.
Lífslind er munnur réttláts manns
en lögleysan hylst í munni hins illa.
Hatur vekur illdeilur
en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.